Ætlar þú að láta styrktaræfingar mæta afgangi?

Ein algengustu mistök sem íþróttafólk gerir er að láta styrktaræfingar mæta afgangi þegar álag í íþróttagreininni eykst á undirbúningstímabilinu og keppnistímabilinu sjálfu. Fyrir mér er þetta jafn galið og að ætla að byrja að æfa almennilega fjórum vikum fyrir mót eftir að hafa legið í dvala í nokkra mánuði.

Körfubolti er íþrótt sem ætti að vera stunduð allt árið, þó svo að keppnistímabilið sé frekar stutt. Styrktarþjálfun ætti því að vera sett upp fyrir allt árið með áherslubreytingum þegar álag eykst í íþróttagreininni.

Það er mjög auðvelt að tapa styrk þegar honum er ekki haldið við á tímabilinu. Ég hef oft orðið vitni af því.Það er synd að eyða heilu sumri í að byggja upp styrk og kraft og tapa því svo þegar líður á haustið, ekki satt?

Markmiðið ætti ekki bara að snúast um að viðhalda styrk, heldur gæti vel úthugsað æfingakerfi séð til þess að nú náir að bæta styrk og þá sérstaklega þar sem veikleikar voru fyrir. Til þess að þetta gangi upp, þá þurfa margir þættir að spila saman. Svefn, næring, stjórnun álags o.fl. Það er kúnst að skipuleggja styrktarþjálfun á keppnistímabili ofan á 5-6 liðsæfingar í viku og svo leikjaálag ofan á það.

Hér eru nokkrir þættir sem þú ættir að hafa í huga þegar kemur að því að ákveða hvort styktarþjáfun verði í forgangi hjá þér á keppnistímabilinu:

  • Skipulögð styrktar- og sprengikraftsþjálfun minnkar líkur á álagsmeiðslum á keppnistímabili.
  • Skipulögð styrktar- og sprengikrafstþjálfun eykur afköst í leikjum og flýtir fyrir endurheimt í miklu álagi.
  • Skipulögð styrktar- og sprengikraftsþjálfun viðheldur (og jafnvel eykur) kraftmyndum og styrk.
  • Þú þarft ekki að byrja á algjörum byrjunarreit eftir að keppnistímabili lýkur og uppbyggingarfasi hefst upp aftur.

Mörg lið búa að því að hafa góða styrktarþjálfara sem sjá um að stýra álagi. En því miður er það ekki þannig í öllum liðum og styðjast liðin við handahófskennda nálgun á styrktarþjálfun sem í besta falli skilar handahófskenndum bætingum.

Hefur þú áhuga á þjálfun körfuboltafólks? Fylgstu þá meða á Instagram: @vssperformance