Er Crossfit kjörið fyrir íþróttafólk úr öðrum íþróttagreinum?

Crossfit er eitt það allra vinsælasta í líkamsræktarheiminum í dag og undanfarin ár. Mér finnst það heldur ekkert skrítið enda hefur Crossfit gjörbreytt líkamsrækt til hins betra. Fyrir um 8 árum þá skrifaði ég grein um Crossfit ásamt vini mínum, Einari Kristjánssyni og er sú grein enn lang mest lesna greinin hér á þessari síðu. Hægt er að lesa hana HÉR.

Á þessum átta árum þá hefur Crossfit þróast gríðarlega og sömuleiðis ég sjálfur. Þannig ég er alls ekki sammála öllu sem ég skrifaði fyrir svo löngu síðan en þó eru nokkrir punktar sem hafa þarf í huga þegar kemur að því að velja þjálfunaraðferð fyrir íþróttafólk úr öðrum íþróttagreinum.

Hverjir ættu/gætu stundað Crossfit samhliða sinni íþrótt?

Ég tel að það þurfi að meta það út frá hverjum og einum. Fyrir suma aðila þá mundi það kannski virka fínt og þá aðallega þá sem eru ekki í góðu líkamlegu formi fyrir, hafa góðan grunn og eiga ekki við nein meiðsli að stríða. Fyrir aðra sem eru með sérhæfðari markmið, þá þurfa þeir einfaldlega sérhæfðari þjálfun.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að Crossfit keppendur æfa ekki eins og hinn almenni Crossfit iðkandi inn af götunni. Ef þú ert að fara í WOD fyrir almenning og ætlast til að bæta hraða- og sprengikraft, þá mun það einfaldlega ekki skila þér þangað. Þú gætir séð einhverjar bætingar með bættu almennu hreysti en til eru mun skilvirkari aðferðir.

Ef þú þarft að léttast aðeins og bæta grunnstyrk og úthald, þá getur hefðbundin Crossfit þjálfun virkað fínt fyrir þig. Þetta gæti verið góður undirbúningur undir það sem koma skal. Það kemur hins vegar að þeim tímapunkti að þú þurfir að skipta yfir í sérhæfðari nálgun.

Afhverju hentar almenn Crossfit nálgun ekki fyrir íþróttafólk úr öðrum greinum?

  • Eins og áður sagði, þá er nálgunin oft handahófskennd og einnig skortur á sérhæfingu.
  • Þjálfunin er ekki einstaklingsmiðuð og er ekki sett upp með þarfir hvers íþróttamanns fyrir sig.
  • Oft er unnið á löngum tíma og/eða mörgum endurtekningum af stórum tæknilegum æfingum. Of mikið þjálfunarmagn (volume)
  • Þannig nálgun getur aukið líkur á meiðslum fyrir íþróttafólk sem brýtur einnig niður líkamann í miklu álagi í sinni íþróttagrein.
  • Hreyfingarnar eru mjög oft bara í einu hreyfiplani (sagittal plane) sem hentar ekki íþróttafólki sem þarf að hreyfa sig í öllum hreyfiplönum.
  • Í íþróttum þarf að mynda kraft hratt (High force – high velocity output) sem verður oft útundan þegar verið er að vinna með of margar endurtekingar í stórum hreyfingum.

Crossfit nálgun er misjöfn og ekki hægt að setja allt undir sama hatt. Það eru vissulega til Crossfit þjálfarar og box sem geta gert mikið fyrir íþróttafólk með sinni þekkingu og skilningi á mismunandi íþróttagreinum. Ég hef sjálfur stundað Crossfit, líkaði vel og hef tileinkað mér aðferðir sem ég hef lært og notað á íþróttafólkið mitt með góðum árangri.