Handahófskenndar æfingar skila handahófskenndum niðurstöðum

Þetta er algengur frasi í heimi styrktarþjálfunar og í mörgum tilfellum er mikið til í þessu. Ástæðan fyrir þessum skrifum er að ég veit til þess að margir eru að sækja sér stakar æfingar og æfingaáætlanir úr mörgum mismunandi áttum, oft á tíðum vegna þess að þær eru ódýrar eða jafnvel fríar. Athugið að þetta á mest við um íþróttafólkið sem er með skýr markmið og vegurinn að þeim markmiðum þarf að vera skýr og oft á tíðum sérhæfður.

Hinn almenni ræktariðkandi sem er að leitast eftir því að léttast, styrkjast eða bara almennu hreysti, getur vel náð árangri á handahófskenndum æfingum í einhvern tíma. 

Að hoppa á milli æfingakerfa (e. program hopping) er mjög algengt og skilar það oft takmörkuðum bætingum. Ef þú værir með markmið um að bæta sprengikraft þá mundi aldrei ganga að hoppa á milli æfingakerfa og gera bara eitthvað. Það mundi skila afar litlum bætingum. Það er ástæða fyrir því að æfingakerfum er skipt niður fasa með mismunandi áherslum þar sem hver fasi er undirbúningur fyrir þann næsta.

Æfingakerfi eru oft hugsuð út frá heilu ári og styrktarþjálfarar vinna í að gera ársplön og þarfagreiningar á þeim íþróttagreinum sem þeir eru að vinna með og æfingarnar oft sérhæfðar eftir því.

Léttasta verk styrktarþjálfara er að keyra þig út og gjörsamlega ganga frá þér. Það þarf alls ekki að þýða að æfingin hafi verið góð. Hver styrktaræfing sem íþróttamaður tekur er undirbúningur fyrir næstu æfingu.

Ef að æfingin skilur eftir sig svo mikið af harðsperrum að þú varla kemst á klósettið í 3 daga, þá ertu mögulega að stuðla að því að þú missir af 1-2 gæða æfingum sem hefðu getað orðið á þessum 3 dögum. Það þarf að skoða heildarmyndina til langs tíma og stuðla að stöðugleika viku eftir viku.

Ráð: Finndu þér styrktarþjálfara eða einkaþjálfara og fylgdu þeirra hugmyndafræði í einu og öllu í að minnsta kosti 6-8 vikur. Þá fyrst muntu verða dómbær á hvort aðferðin sé að skila því sem þú vilt.