Styrktarþjálfun barna og unglinga

Ein spurning sem sem ég veit að flestir styrktarþjálfarar fá reglulega er, hvenær börn mega fara að stunda styrktarþjálfun. Oft er búið að tengja hugtakið styrktarþjálfun við þung lóð og tæknilega flóknar æfingar, þar sem krafa er gerð um góðan grunn og þekkingu. Eðlilega þá stíga margir foreldrar á bremsuna.

En einhvern tímann þarf að byggja upp þennan grunn til þess að hægt sé að færa sig yfir í sérhæfðari æfingar sem jafnvel eru tæknilegri og meira krefjandi. En grunnþjálfun líka getur verið mjög krefjandi, þá sérstaklega ef þú ert ekki með neinn grunn.

Svarið við spurningunni hér að ofan:

“Hvenær má barnið byrja að stunda styrktarþjálfun”? Svar: Því fyrr, því betra en einstaklingurinn þarf að:

  1. Geta tekið við skipunum og fylgt leiðbeiningum.
  2. Geta skilið grunnreglur hvað öryggi varðar.
  3. Búa yfir algjörri lágmarksgetu hvað líkamsstöðu og jafnvægi varðar.

En fyrst þarf oft að útskýra hugtakið styrktarþjálfun fyrir foreldrum. Styrktarþjálfun þarf ekki að vera í formi lyftinga með lóðum. Styrktarþjálfun þarf ekki að vera tæknilega flókin. Styrktarþjálfun dregur ekki úr vexti barna og unglinga (já ég veit, ég fæ þessa spurningu enn).

Styrktarþjálfun er ekki bara æfingar með búnaði heldur framkvæmd samsettra æfinga og hreyfinga sem auka grunnstyrk, hreyfifærni, stöðugleika og liðleika. Þessar æfingar geta verið gerðar með líkamsþyngd og jafnvel léttri mótstöðu í einhverjum tilfellum. Þessar æfingar/hreyfingar eiga að vera hættulausar og oft á tíðum er í fínu lagi þó æfingin sé ekki framkvæmd rétt. Það er hlutverk þjálfarans að leiðrétta og laga þangað til góð færni hefur náðst.

Gamlar mýtur lifa oft góðu lífi og fyrir einhverjum áratugum var sagt að börn mættu ekki stunda styrktarþjálfun fyrr en þau væru orðin 16 ára eða búin að ná fullum vexti. Styrkarþjálfun með lóðum gæti haft áhrif á og dregið úr vextinum. Sem er auðvitað algjört bull.

Hvar á að byrja?

Nauðsynlegt er að fá fagaðila til þess að hjálpa til við uppsetningu styrktarþjálfunar. Það er ekki vænlægt til langvarandi árangurs að hala niður einhverju æfingakerfi af handahófi á netinu og byrja að vinna eftir því.

Ég mundi mæla með að láta fagaðila framkvæma hreyfigreiningu á barninu og sjá hvort einhverjar hömlur koma fram þar. Þá er hægt að vinna útfrá því og gera einstaklingsmiðaða æfingaáætlun.

Að mínu mati ættu öll íþróttalið að hafa styrktarþjálfara í starfi við að sinna grunnþjálfun barna og unglinga. Þar þyrftu allir iðkendur að fara í gegnum ákveðið kerfi með margra ára framþróun í huga. Einhver lið eru með styrktarþjálfara í starfi en mikil vöntun er þar á í mörgum klúbbum, því miður.

Ef þig langar að forvitnast meira um styrktarþjálfun barna og unglinga, sendu mér þá línu á: villi.steinars@gmail.com eða á Instagram: @vilson4.