Eru harðsperrur mælikvarði á góða æfingu?

http://www.menshealth.co.uk/

Sprettir geta valdið miklum harðsperrum fyrir óvana.

Hver þekkir ekki hugtakið „No Pain – No Gain“. Allir þeir sem hafa æft eitthvað að viti og reynt á sig líkamlega, kannast við það að fá harðsperrur. Það fylgir því að stunda styrktarþjálfun eða íþróttir sem krefjast mikillar líkamlegrar áreynslu. Harðsperrurnar koma yfirleitt 12-48 tímum eftir mikla áreynslu og má rekja sársaukann til lítilla skemmda í vöðvaþráðum (mircrotrauma).

Lengjandi vöðvaálag (eccentric) er talið valda þessum skemmdum. En til að einfalda hugtakið, þá er lengjandi vöðvaálag þegar þú ferð t.d. hægt niður og viðheldur vöðvaspennu í hnébeygjunni eða lætur líkamann síga hægt niður í upphífingunum.

Líkurnar á miklum harðsperrum ákvarðast af nokkrum þáttum. 1) Ef þú ert að byrja að æfa eftir langa dvöl í sófanum. 2) Ef þú ert að byrja á nýju æfingakerfi með breyttum áherlsum og nýjum æfingum. 3) Ef þú ert að þyngja mikið frá því sem þú ert vanur/vön. 4) Ef þú einbeitir þér meira að lengjandi vöðvaálagi.

Harðsperrur eru alls ekki mælikvarði á góða æfingu. Vanir íþróttamenn sem hafa haldið stöðugleika í æfingum í langan tíma, fá ekki harðsperrur eftir hverja æfingu. Líkaminn þeirra er vanur álaginu og aðlögunarhæfnin hjá þeim er mun betri en hjá þeim sem lítið hreyfa sig. Það þýðir samt alls ekki að þeir séu ekki að taka almennilega á því.

Líkaminn aðlagar sig fljótt að aðstæðum og ef þú ert búin/n að vera að vinna í sömu æfingum, endurtekningafjölda og þyngdum í einhvern tíma, þá minnka líkurnar á harðsperrum þar sem líkaminn hefur aðlagað sig að því ákveðna álagi. Möguleikinn er því til staðar að þú sért orðin/n sterkari og ráðir betur við það álag en áður.

Ekki stressa þig á að fá ekki harðsperrur eftir æfingar því það þýðir alls ekki að þú hafir átt lélega æfingu. Líkamlegur árangur er mælanlegur á marga vegu – Harðsperrur er ekki einn af þeim mælikvörðum og koma árangri því ekkert við.