Álagsstjórunun: Reynslusaga

Eitt af því allra mikilvægasta í keppnisíþróttum er álagsstjórnun að mínu mati. Ef þú keyrir líkamann aðeins yfir brúnina, þá eru líkur á að þú fáir ekki það útúr honum og þú ert að sækjast eftir. Ég tala nú ekki um að þú eykur líkur á meiðslum margfalt.

Eflaust finnst einhverjum þetta asnalegt og halda því fram að því meira sem þú æfir, því betri verður þú í þinni grein.  Já það virkar kannski hjá einum og einum en hjá okkur hinum, getur þetta endað illa. Margir íþróttaþjálfarar eru rosalega góðir í að stjórna sínum æfingum, taktík, leikkerfum og allri keyrslunni. En málið er að margir þeirra hafa ekki hugmynd um hvernig líkaminn virkar og þekkja ekki orðið HVÍLD.

Hver kannast ekki við það að fá langa helgi í frí frá æfingum og koma til baka á mánudegi, með þvílíka orku og kraft að það er eins og ekkert fái mann stoppað. Þetta er einmitt ávinningur þess að fá hvíld á réttum tíma og í réttu magni.

Ég byrjaði ungur að spila með meistaraflokki í körfu og var með hrikalegan metnað. Ég var frekar grannur og léttur og þurfi vissulega að styrkja mig fyrir öll átökin. Ég fékk þau skilaboð að ég þyrfti að fara að lyfta og styrkja. Eins og ég sagði, þá var ég mjög metnaðarfullur og ætlaði mér að ná langt. Ég fór að lyfta á fullu, vaknaði fyrir 6 alla morgna til þess að fara í ræktina. En gallinn var sá að ég kunni ekkert að lyfta og liðið mitt var ekki með neinn sem gat kennt mér að lyfta. Ég reyndi að herma eftir þeim sem voru massaðir og litu út fyrir að vita hvað þeir væru að gera.

En hvað um það, ég æfði og æfði og voru æfingarnar allt uppí 12-14 á viku, með öllum körfuboltaæfingunum og leikjunum. Ég kunni ekki að hvíla. En fyrst um sinn, þá bætti ég mig mikið. Ég varð sterkari, sneggri, hoppaði hærra og allt það sem því fylgdi. Þegar maður er ungur, þá þolir maður mikið álag og ef þú hefur verið í íþróttum, þá fannstu líklega fyrir því á yngri árum að þú varst „alltaf í formi” og það tók enga stund að komast á þann stað sem maður vildi vera.

Þegar ég fór að detta í tvítugt, þá fóru hlutirnir að gerast. Ég fór í þrjár hnéaðgerðir á mjög skömmum tíma og fékk svo skilaboð að ég þyrfti að hvíla í ákveðið langan tíma. Ég fór allt of snemma af stað og fann að ég var ekki tilbúinn í öll þessi átök. Útfrá því fór ég að beita mér vitaust og fór að fá verki í nára og bak.

Þegar ég var um 24 ára gamall, þá fór ég að fá verki í bakið. Á þessum tíma var ég að spila með Keflavík. Þeir voru daufir í fyrstu og ég spilaði áfram auðvitað og æfði eins og tittlingur. Smám saman fóru þeir að versna og ég gerði ekkert í málunum, nema halda áfram að spila og þjösnast á þessu.

Ég flakkaði á milli sérfræðinga til þess að finna hvað væri að mér. Lítið sást á myndatökum og ég fékk því engin svör við þessu. Það var ekki fyrr en árið 2009 að ég fór til Péturs E. Jónssonar, hjá Atlas Endurhæfingu, að ég fór að fá svör við þessum verkjum.

Ég var með brjósklos á tveimur neðstu hryggjaliðum og einnig spurngu í hryggjalið. Það var ekki hægt að draga neina aðra ályktun nema að þessi meiðsli stöfuðu af ofálagi í mjög langan tíma. Ég hóf meðferð hjá Pétri sem stóð í hátt tvö ár, því í byrjun var erfitt að meðhöndla þetta vegna þess að mjöðmin var „frosin“ og vefir í kring svo stífir af öllu álaginu.

Ég þarf að fara reglulega til hans til þess að kanna stöðuna og hvort ekki sé allt í lagi. Ég get ekki hlaupið, hoppað né tekið æfingar þar sem ég set mikið álag á hrygginn (hnébeygja, réttstaða, þung axlapressa o.m.fl). Ég hætti í körfu 27 ára gamall, ekki á eigin forsendum.

Ég er ekki að skrifa þetta til þess að láta vorkenna mér á neinn hátt, þvert á móti. Ég var enginn toppleikmaður og er heldur ekki að segja að ég hefði náð eitthvað lengra ef ég hefði ekki lent í þessum meiðslum. Kannski var ég bara með svona léleg gen, hver veit? En ég lít á þetta sem lán í óláni því ég hefði líklega ekki fengið svona mikið passion fyrir þjálfun, ef ég hefði ekki þurft að fara í gegnum þetta ferli.

Ég lærði íþróttafræði og fór þá að læra mikið um líkamann. Ég þjálfa mikið af íþróttafólki og oft á tíðum er álagsstjórnun eitt af þeim verkefnum sem ég þarf vinna í. Ég vil miðla þessari reynslu minni til annarra leikmanna og það er enn allt of mikið um það að fólk æfir of mikið og ómarkvisst. Það eykur þar með líkur á meiðslum sem getur endað illa. Þú finnur kannski ekki endilega fyrir því snemma á ferlinum, en þegar meiðslin koma, þá getur verið erfitt að vinna sig útúr þeim á eigin spýtur.

Það er einnig í höndum þjálfara að kynna sér álagsstjórnun og leikmenn þurfa að hlusta á líkamann og vera ófeimnir við láta vita ef þeir finna til eða treysta sér ekki til að framkvæma einhverjar æfingar. Það hlýtur að vera markmið hvers íþróttamanns að sleppa við meiðsli og eiga langan og farsælan feril. Þú ert ekkert minni NAGLI þó þú strjórnir álagi á skrokkinn og ert örlítið skynsamari.